TTV-103 Goðafoss, Laufas, Jólahús

TTV-103 Combo - Goðafoss, Laufás & Jólahúsið 19. júní, 10. júlí & 14. ágúst

Ferðin hefst kl 11:00
Sunnudaginn 19. júní, 10. júlí & 14.ágúst
Brottför frá menningarhúsinu Hofi Akureyri
Áætluð ferðalok kl 16:00 við Hof
Leiðsögn á íslensku og ensku (ef þarf)
Verð 11.000 kr á mann

Áhugavert:

Gott að hafa með:

Þetta er virkilega sniðug ferð og hún er sko algjörlega fyrir alla! Við förum rólega yfir, stoppum lengi á hverjum stað og njótum þess svo innilega að vera til. Fyrst er ekið í átt að  Vaðlaheiðargöngum með góðu stoppi á einum fegursta og þekktasta útsýnisstað í Eyjafirði gegnt Akureyri. Þaðan förum við að Goðafossi, sem er jú einn af fegurstu fossum á landinu. Eftir gott stopp þar er ekið um Dalsmynni og að Laufási Við gefum okkur góðan tíma þar og skoðum vel torfbæinn með leiðsögn en aðgangseyrir í bæinn er innifalinn í ferðinni.  Ægifegurð Eyjafjarðar í þessu landnámi Helga Magra og Þórunnar Hyrnu konu hans, mætir okkur við hvert fótmál, er við ferðumst nú “fram í fjörð” í átt að Jólagarðinum. Jólahúsið litla í vinalega garðinum er alltaf svo gaman að heimsækja og við gefum okkur góðan tíma til þess áður en endum ferðina á Akureyri aftur eftir góðan seinnipart þennan sæla sumardag. 

Bókið núna! bara 11.000 iskr

Goðafoss þarf vart að kynna en hann liggur í Skjálfandafljóti, einni lengstu jökulsá landsins. Margir aðrir fossar eru í fljótinu og má nefna Ullarfoss, Barnafoss, Hrafnabjargarfoss og Aldeyjarfoss. Goðafoss er þekktur úr Íslandssögunni en í hann á Þorgeir Ljósvetningagoði að hafa hent styttum sínum af Goðunum úr Ásatrúnni, er hann skipti um trú við kristnitökuna á Alþingi árið 1000. Aðgengi að fossinum er mjög gott og auðvelt að ganga um og skoða hann báðu megin árgilsins.

Laufás í Eyjafirði er einn af stóru torfbæjunum sem enn standa uppi og er haldið vel við. Við heimsækjum Laufás og göngum um bæinn með leiðsögn en þið fáið líka tíma til að njóta þess að skoða hann vel upp á eigin spýtur. Staðurinn sjálfur á sögu allt aftur að landnámi en burstabærinn sem nú stendur þar var byggður 1860 – 1877. Búið var í torfbænum allt til 1936. Kirkjan á Laufási var byggð 1865 en í henni er forn predikunarstóll sem talið er að sé síðan 1698. 

Jólagarðurinn er opinn allt árið. Jólagarðurinn er að Hrafnagili í Eyjafarðarsveit en á leið okkar þangað fáum við að heyra um Álfkonuna í Grásteini og samskiptum hennar við nágranna sinn að Ytri-Tjörnum, við fræðumst um Helga Magra og konu hans Þórunni Hyrnu er námu allt þetta fallega landssvæði. Við heyrum líka um dóttir þeirra er fæddist hér í Eyjafirði og hlaut nafnið Þorbjörg Hólmasól. Póstkassar á leiðinni vekja athygli okkar sem og svo margt annað. Við skoðum ýmislegt í þessari ferð, allt frá fossum, húsum og fjöllum, og  fræðumst um fossa, hús, mannlíf, Jólaveina, Tröll, brjóst og álfkonur svo eitthvað sé nefnt. 

Við endum ferðina á Akureyri með stuttri útsýnisferð um bæinn fagra við Pollinn.